Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona Íslands í knattspyrnu var tekin í lyfjapróf eftir leik íslenska landsliðsins gegn Belgum á EM í gær og það átti eftir að setja smá strik í reikninginn fyrir hana. Karólína talaði við blaðamenn fyrir æfingu íslenska landsliðsins í dag.

,,Það var bara allt í lagi. Maður er vanur þessum lyfjaprófum eftir Meistaradeildina," sagði Karólína aðspurð hvernig það hafi verið að fara í lyfjapróf. ,,Það er samt aldrei gott að þurfa keppa í 28 gráðum, svitna öllu út og þurfa svo að pissa undir pressu en engar áhyggjur ég er ekki að fara falla á þessu," sagði Karólína í viðtali á æfingu íslenska landsliðsins í dag.

Lyfaprófið setti strik í reikninginn fyrir Karólínu því að hún missti af liðsrútunni eftir leik.

,,Ég fór með Sigga Dúllu og Allý lækni heim þannig ég var bara í góðu utanumhaldi þarna."

Leikur gærdagsins fór fram í miklum hita.

,,Ég persónulega hafa frost frekar en svona hita en þetta vandist eftir því sem leið á leikinn," sagði Karólína og vill meina að undirbúningur liðsins í Þýskalandi og Póllandi fyrir EM hafi hjálpað þeim að venjast hitanum.

,,Algjörlega og svo hjálpar það mér líka að vera spila út í Þýskalandi með mínu félagsliði. Það var klárlega mjög heitt á meðan leik okkar við Belga stóð svo ég vona að það verði aðeins kaldara veður á móti Ítalíu."

Viðtalið við Karólínu í heild sinni má sjá hér fyrir neðan: