Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er með þriðja besta markahlutfall kvennalandsliðsins frá upphafi með sjö mörk í sautján leikjum. Aðeins Margrét Lára Viðarsdóttir og Rakel Ögmundsdóttir eru með betra markahlutfall í leikjum fyrir kvennalandsliðið.

Þrátt fyrir ungan aldur var hin tvítuga Karólína að leika sautjánda landsleik sinn í gær.

Sóknartengiliðurinn sem er uppalin í FH er strax komin með sjö mörk fyrir kvennalandsliðið og deilir 18-19. sæti yfir markahæstu leikmenn kvennalandsliðsins frá upphafi með áðurnefndri Rakel.

Til marks um það er Karólína í þriðja sæti yfir besta markahlutfall (mark í hverjum leik) í sögu kvennalandsliðsins. Karólína er með mark í 41,2% leikja að meðaltali fyrir kvennalandsliðið.

Rakel sem lék aðeins tíu leiki á sínum tíma skoraði sjö mörk og er því með besta markahlutfall kvennalandsliðsins frá upphafi en Margrét Lára skoraði 79 mörk í 124 leikjum sem er 63,7% markahlutfall.