Bayern München varð í dag Þýskalandsmeistari í fótbolta kvenna. Bayern München tryggði sér titilinn með 4-0 sigri gegn Eintracht Frankfurt í lokaumferð deildarinnar .

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inná sem varamaður á 84. mínútu leiksins fyrir Bayern München en Alexandra Jóhannsdóttir kom inná hjá Eintracht Frankfurt í hálfleik.

Karólína Lea er að verða landsmeistari annað árið í röð en hún og Alexandra urðu Íslandsmeistarar með Breiðabliki síðasta haust.

Nú hafa fjórar íslenskar fótboltakonur orðið þýskur meistari en Dagný Brynjarsdóttir varð meistari með Bayern München árið 2015. Sara Björk Gunnarsdóttir varð þýskur meistari fjögur ár í röð með Wolfsburg, 2017, 2018, 2019 og 2020. Þá varð Margrét Lára Viðarsdóttir þýskur meistari með Turbine Potsdam árið 2012.