Franska hjól­reiða­sam­bandið hefur svarað fyrir á­sakanir um kynja­mis­munun eftir að karla- og kvenna­lands­liðunum var flogið til Ástralíu til að taka þátt í heims­meistara­mótinu sem þar fer fram.

Breska ríkis­út­varpið, BBC, greinir frá því að þeir níu sem eru í karla­liðinu hafi fengið sæti á fyrsta far­rými vélarinnar á meðan konurnar sjö sem skipa kvenna­liðið hafi þurft að gera sér að góðu að sitja á al­mennu far­rými.

Það þykir eftir­sóknar­verðara að vera á fyrsta far­rými enda betri sæti, rýmra á milli sæta auk þess sem far­þegar þar fá meiri og per­sónu­legri þjónustu.

Christop­he Manin, tækni­stjóri lands­liðanna, segir að nokkur at­riði hafi legið til grund­vallar þeirri á­kvörðun að láta karla­lands­liðið sitja fremst í vélinni. Ekki hafi verið mögu­legt að láta alla sitja á fyrsta far­rými og þar sem karla­lands­liðið sé hærra skrifað en kvenna­lands­liðið hafi þeir verið sendir á fyrsta far­rými.

„Karla­liðið hefur orðið heims­meistarar tvisvar í röð og við förum í mótið með titil að verja,“ segir Manin en bætir við að kvenna­liðið sé ekki jafn sterkt.

„Ef þetta væri heims­meistara­mót í fjalla­hjól­reiðum hefði kvenna­liðið fengið þessi sæti og strákarnir setið aftur,“ segir Manin og vísaði í góðan árangur Pauline Ferrand-Pre­vot og Loana Lecomte á undan­förnum árum en þær eru marg­faldir heims- og Evrópu­meistarar í sínum flokkum.