Ísland fellur niður tvö sæti á heimslista FIFA sem var gefinn út í morgun og er nú í 41. sæti listans, þar af í 24. sæti innan Evrópu.

Listinn var búinn að standa í stað síðan 9. apríl en tekur nú mið af leikjunu í Þjóðadeildinni.

Í listanum er tekið mark á nýjustu landsleikjunum sem fóru fram um daginn þegar Ísland tapaði gegn Englandi og Belgíu. Belgar eru í toppsæti listans en Englendingar í 4. sæti.

Ástralía og Paragvæ taka fram úr Íslandi en þetta er annað árið í röð sem Ísland dvelur í 41. sæti um tíma. Sex ár eru liðin síðan Ísland var í verri stöðu á listanum.

Rúmenar, andstæðingar Íslands í umspilinu fyrir EM í næsta mánuði eru í 34. sæti listans.