Þýski markvörðurinn Loris Karius er að leggja lokahönd á félagsskipti til Union Berlin í Þýskalandi en Liverpool tekst ekki að finna félag til að kaupa markmanninn.

Karius eyddi síðustu tveimur árum hjá Besiktas í Tyrklandi á láni en yfirgaf félagið í vor eftir deilur við félagið um launagreiðslur.

Markvörðurinn fer í læknisskoðun hjá Union Berlin í dag áður en gengið verður frá félagsskiptunum. Ekkert ákvæði er til staðar um fast kaupverð ef Berlínarmenn vilja kaupa Karius í lok tímabils.

Eftir hræðileg mistök í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir tveimur árum virðist Karius ekki eiga upp á pallborð hjá Jurgen Klopp. Í leiknum sem lauk með 3-1 sigri Real Madrid átti Karius stóran hlut í tveimur mörkum spænska liðsins.

Hann er því á leiðinni aftur til Þýskalands þar sem hann gerði góða hluti með Mainz áður en Liverpool keypti hann.