Kári Garðarsson var í dag ráðinn sem þjálfari meistaraflokks kvenna í handbolta hjá Gróttu til næstu þriggja ára og tekur við liðinu af þeim Davíð Erni Hlöðverssyni og Arnari Jóni Agnarssyni.

Kári hefur starfað lengi við þjálfun hjá Gróttu og meðal annars stýrt meistaraflokkum félagsins bæði í karla- og kvennaflokki. Þá hefur hann starfað sem íþróttafulltrúi á Seltjarnarnesi undanfarin ár.

Nú síðast var Kári þjálfari meistaraflokks karla hjá Fjölni og kom Grafarvogspiltum upp í efstu deild þar sem hann stýrði liðinu á núverandi keppnistímabili. Fjölnir féll úr Olísdeildinni í vor en Kári lét í kjölfarið af störfum hjá félaginu.

Kári endurnýjar nú kynni sín af kvennaliði félagsins en hann náði stórbrotnum árangri með liðið á tímabilunum 2013 til 2017 þar sem hann gerði liðið meðal annars að Íslandsmeisturum í tvígang.