Kári er að feta sín fyrstu skref í starfi sem yfirmaður knattspyrnumála eftir að knattspyrnuskórnir fóru á hilluna eftir tímabilið þar sem að Kári varð ásamt liðsfélögum sínum Íslands- og bikarmeistari.

Hann segir það spenandi að takast á við knattspyrnuna frá annarri hlið. ,,Það er svolítið spes en bara gaman og felur í sér nýjar áskoranir. Það er nóg að gera og starfssvið mitt er svolítið vítt. Til að mynda að koma á laggirnar stefnu, afreksstefnu og öðrum stefnum tengdum barna- og unglingastarfi hjá félaginu. Það er svona efst á baugi núna. Þetta kemur líka að meistaraflokki karla hjá félaginu, það er að segja að styrkja liðið og hjálpa Arnar eins og ég mögulega get."

Það hefur ekki tíðkast hjá knattspyrnufélögum á Íslandi að vera yfirmann knattspyrnumála. Kári segist hafa undrað sig á því þegar að hann skoðaði stöðu knattspyrnunnar í Skandinavíu. ,,Þegar að ég sá svona stöðu í knattspyrnunni í Skandinavískum fótbolta skildi ég aldrei afhverju það væru ekki öll lið með starfsmann sem er í raun að passa hagsmuni félagsins. Oftar en ekki eru þetta innanbúðarmenn sem hafa átt fínan knattspyrnuferil og hafa síðan komið aftur til félagsins.

Eitt af því sem hefur verið í umræðunni í tengslum við íþróttalíf á Íslandi er skortur á afreksstefnu. Kári vinnur nú ásamt öðrum innan Víkings að mótun slíkrar stefnu og hann hefur sterkar skoðanir á því hvernig slík stefna eigi að vera eftir langan feril sinn sem atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu.

,,Við erum að skoða þetta núna. Þetta er viðkvæmt á Íslandi einhverra hluta vegna og ég skil það ekki alveg. Auðvitað vilja allir að barnið sitt sé afreksmaður í íþróttum en það er bara ekki alltaf þannig. Fólk verður kannski bara að átta sig á því að við erum að reyna búa til atvinnutækifæri fyrir einstaklinga. Það eru ekkert allir sem hafa eitthvað í þetta að gera. Hvort sem að það sé sálrænt, líkamlega eða út frá hæfileikum séð."

,,Þessi leikur er enginn dans á rósum. Ég mun ekki hvetja son minn til þess að verða atvinnumaður í knattspyrnu. En ef honum langar til að gera það þá mun ég að sjálfsögðu styðja við bakið á honum í því. Ég mun hins vegar þurfa að vera hreinskilinn við hann hvort að hann hafi það sem til þarf. Ég held að það vanti svolítið að foreldrar séu það, sjái börnin sín fyrir það sem þau eru frekar en að ætla þeim að gera eitthvað sem þau eiga kannski ekkert í."

Kári segir þó að með tilkomu afreksstefnu muni félagið ekki loka á aðra iðkendur sína sem hafi kannski ekki jafn háleita drauma eða hæfileika til þess að taka skrefið upp í meistaraflokk.

,,Við berum skyldu sem hverfisfélag að starfið okkar sé líka félagslegt og í raun ákveðin leikfimi fyrir aðra. Þetta þarf líka að vera skemmtilegt og gaman frekar en að gera þá kröfu á öll til þess að spila fyrir meistaraflokk og halda síðan út í atvinnumennsku, þetta er ekki svo einfalt.

Kári vill mynda stemmningu sem er góð blanda af þessu báðu. Ummhverfi hjá Víkingi yrði þá þannig að iðkendur geti bætt sig. ,,Ef þeir eru rosalega metnaðarfullir og hafa það sem til þarf þá erum við að veita þeim þá þjónustu sem þeir þurfa til þess að taka næsta skref. Fyrir hina sem eru kannski ekki jafn áhugasamir og metnaðafullir verður samt umhverfi hjá okkur þar sem þeir geta æft," sagði Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi Reykjavík