Kári Gunnarsson hefur það að markmiði að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum sem fram fara í Tókýó næsta sumar. Kári þarf að taka þátt í alþjóðlegum mótum til þess að tryggja sér sæti þar.

Það kostar sitt að keppa víðs vegar um heiminn og Kári greinir frá því á facebook-síðu sinni í dag að hann hafi í samstarfi við badmintonsamband Íslands hrint af stað söfnun með það að augnamiði að safna tveimur milljónum.

„Frá því að ég var 9 ára hef ég verið al­veg brjálaður í badm­int­on. Einu skipt­in sem ég skrópaði úr skól­an­um var til þess að fara að leika mér í badm­int­on­höll­inni eða til þess að horfa á eldri og betri spil­ara æfa.

Þegar ég var 13 ára borðaði ég ekki syk­ur í meira en ár — ekki af því að ég væri að glíma við ein­hver auka­kíló, held­ur af því að ég hélt að með þeim hætti gæti ég bætt mig ör­lítið í badm­int­on.

Þegar mögu­leik­inn bauðst að keppa alþjóðlega fram að Ólymp­íu­leik­un­um í TOKYO á næsta ári á veg­um upp­á­halds­lands míns í heimi þá fannst mér það nú aug­ljóst að ég vildi að gera það,“ segir Kári í færslu sinni.

Finna má söfnunina og leggja henni lið með því að smella hérna.

Getur fylgst með degi í lífi Kára á föstudaginn

Kári er eins og sakir standa í 136. sæti á heimslist­an­um en hann þarf að komast upp um 27 sæti til þess að komast inn á Ólympíuleikana. Í byrjun maí 2020 kemur lokalistinn út þar sem þátttökurétturinn ákvarðast.

Kári dvelur nú í Danmörku við æfingar með öðru badmintonfólki frá Evrópu og er á leiðinni á mót í Írlandi í næstu viku.

ÍSÍ er með Instagram síðu, @isiiceland, þar sem leitast er við að koma á framfæri því góða starfi sem fram fer í íþróttahreyfingunni. Nú stendur til að beina sjónum að íslensku afreksíþróttafólki og leyfa fólkinu í landinu að fá innsýn í þeirra daglega líf.

Frá og með þessari viku mun íslenskt íþróttafólk skiptast á að taka við Instagram síðu ÍSÍ og sýna okkur hinum hvernig dagur í lífi þess er með því að hlaða inn myndum og myndböndum á Instagram Stories.

Kári er fyrsti íþróttamaðurinn sem ætlar að leyfa okkur að fylgjast með degi í sínu lífi en föstudaginn 8. nóvember ætlar hann að gefa okkur innsýn í lífið sitt þessa stundina.