Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfubolta, greindist með kórónaveiruna þegar hann kom til Girona á Spáni en þar mun hann leika næstu misserin.
Það er mbl.is sem greinir frá þessu en þar segir að Kári finni fyrir kvefeinkennum en hann hafi það ágætt samt sem áður. Kórónaveiran hafi ekki haft alvarleg áhrif á hann.
„Á mánudaginn fékk ég jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi. Þetta er því brösug byrjun en fyrir utan hana líst mér vel á að vera kominn aftur út,“ sagði Kári um veikindin.
„Ég var með einkenni en bara slappleiki og ekkert alvarlegt. Ég vona að það sé bara búið og mér fannst þetta nokkuð svipað því að fá flensu eins og þetta var í mínu tilfelli,“ sagði Kári en næstu leikjum Girona sem leikur í spænsku B-deildinni hefur verið frestað.
„Ég fer í annað próf í næstu viku. Væntanlega fljótlega eftir helgi. Ef við fáum allir neikvæða niðurstöðu út úr því þá getur liðið farið að æfa saman aftur. Við áttum að spila þrjá leiki á liðlega viku og þeim var öllum frestað. Næsti leikur hjá okkur verður því ekki fyrr en 3. janúar. En það er væntanlega ágætt fyrir okkur því við fáum þá smá tíma til að koma okkur í gírinn,“ sagði Kári í samtali við mbl.is um framhaldið.