Kári Árnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, sagði á blaðamannafundi sem haldinn var vegna leiks landsliðsins gegn Englandi í Þjóðadeildinni sem fram fer á Wembley annað kvöld að hann hyggist spila með Víkingi á næsta keppnistímabili. Þá eru landsliðsskórnir ekki komnir á hilluna.

Kári byrjaði þó að ræða stjórnartíð Erik Hamrén sem hættir störfum sem þjálfari íslenska liðsins eftir leikinn á morgun: „ Það voru allir leikmenn liðsins anægðir með Hamrén en mér fannst liðið vera dæmt ranglega af árangirnum í undankeppni EM 2021," segir Kári um stjórnartíð Svíans.

„Við náðum í 19 stig og áttum einn slakan leik sem var leikurinn við Albaníu úti. Ef sá leikur hefði farið betur hefðum við sett stigamet. Ef úrslitin hefðu verið eftir bókinn í leikjum Frakka og Tyrkja hefðum við farið beint inn í lokakeppnina," segir varnarmaðurinn enn fremur um síðustu undankeppni.

„Liðið lék vel í þeim leikjum sem skiptu máli undir stjórn Hamrén og það er alveg eðlilegt að við eigum í vandræðum með lið á borð við England, Belgíu og Danmörku. Sérstaklega þegar það vantar lykilleikmenn vegna meiðsla.

Leikmenn á borð við Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbein Sigþórsson verða að mínu mati að finna langtímalausn á sínum meiðslavandræðum í stað þess að tjassla sér saman fyrir einn og einn leik. Það er hins vegar nóg eftir hjá lykilleikmönnum liðsins ef við tökum mig út fyrir sviga.

Fólk ætti að sameinast um að óska eftir því að þeir leikmenn sem eru þeir einu sem hafa náð einhverjum virkilegum árangri haldi áfram að spila með landsliðinu. Þú átt alltaf að spila á þínu sterkasta liði í keppnisleikjum hjá landsliðinu að mínu.

Þessir leikmenn heilir auk annarra sem hafa verið kjarninn í liðinu undanfarið eru okkar bestu leikmenn, svo einfalt er það. Tími ungra leikmanna kemur svo bara þegar hann kemur," segir hann um framhaldið.

„Ég ætla að spila með Víkingi næsta sumar. Mér finnst ég ekki geta skilið við félagið á þeim nótum sem spilamennskan var á síðustu leiktíð og ég ætla að þrífa upp eftir mig skítinn ef svo má segja. Ég útiloka svo ekki að spila áfram með landsliðinu, en eins og ég hef áður sagt finnst mér ólíklegt að nýr landsliðsþjálfari veðji á leikmenn sem er að verða 39 ára gamall," segir Víkingurinn um framhaldið hjá sér.