„Fyrst og fremst er ég stolt af því hvernig við spiluðum leikinn. Frakkarnir eru með besta lið í heimi og við sýndum að við áttum möguleika gegn þeim en kannski er það að koma í bakið á okkur að hafa ekki klárað hina tvo leikina,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, svekkt þegar hún var spurð út í tilfinningarnar þegar leikurinn var búinn í gær og örlög Íslands ráðin.

Dagný átti erfitt með að útskýra hvað fór úrskeiðis í fyrsta markinu.

„Það var ótrúlega sérstakt því upphitunin fyrir leik var frábær. Það var ein besta upphitun mótsins og við fundum að við vorum klárar. Það kom eitthvað einbeitingarleysi sem má ekki gegn Frökkum og þær setja þetta mark,“ sagði Dagný, aðspurð hvað fór úrskeiðis en hrósaði íslenska liðinu fyrir viðbrögðin.

„Oft hefði litla Ísland orðið stressað og farið á taugum, en fannst við stíga upp og héldum áfram að þora að spila boltanum. Ég gef Davíði Snorra (innsk. leikgreinanda íslenska landsliðsins í leik gærdagsins) hrós fyrir að setja leikinn vel upp.“

Dagný segir að mótið hafi verið svolítið stöngin út hjá íslenska liðinu.

„Við trúðum því allan tímann að við gætum tekið sigur úr þessu og kannski með smá heppni að hinn leikurinn færi okkur í hag en svona er fótboltinn. Kannski fór mótið svolítið stöngin út hjá okkur. Við áttum að vinna Belgana, gerum það ekki, vorum bara lélegar á móti Ítölum og góðar gegn Frökkum.“