Læknateymi Liverpool óskaði eftir því að Loris Karius færi í röntgenmyndatöku á fyrstu dögum sínum í sumarfríinu til að kanna hvort að hann hefði fegnið heilahristing í úrslitaleik liðsins gegn Real Madrid á dögunum.

Afdrifarík mistök Karius færðu Madrídingum fyrsta markið á silfurfati en hann átti einnig að gera mun betur í þriðja marki Real Madrid þegar Gareth Bale skoraði af 35 metra færi.

Fékk hann þungt högg frá Sergio Ramos í upphafi seinni hálfleiks en atvikið kom betur í ljós í leikslok þegar sjónvarpsstöðvar náðu að skoða atvikið betur. Karius var kennt um tap Liverpool en læknateymi félagsins vill kanna hvort að hann hafi fengið heilahristing í atvikinu.

Karius er kominn til Bandaríkjanna í sumarfrí en þar hitti hann að ósk félagsins lækninn Ross Zafonte sem hefur sérhæft sig í höfuðmeiðslum NFL-leikmanna.