Enski landsliðsframherjinn Harry Kane er í leikmannahópi Tottenham Hotspur sem mætir Pacos de Ferreira í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu á fimmtudagskvöldið kemur.

Kane var fjarri góðu gamni þegar Tottenham Hotspur lagði Manchester City að velli í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildinnar í gær en vangaveltur hafa verið um framtíð hans í allt sumar.

Manchester City bauð 100 milljónir punda í Kane fyrr í sumar en því tilboði var hafnað en talið er að forráðamenn City séu staðráðnir í að tryggja sér þjónustu hans og ætli að hækka tilboðið í þessari viku.

Kane mætti aftur til æfinga hjá Tottenham Hotspur á föstudaginn var eftir sumarfrí og einangrun vegna sóttvarnarreglna í kjölfairð.

„Harry er einn besti leikmaður heims og við viljum hafa hann í okkar herbúðum. Nú þarf hann að fara að einbeita sér að því að hjálpa liðinu. Harry er byrjaður að æfa og þegar hann er klár í slaginn mun hann koma inn í hópinn," sagði Nuno Espirito Santo, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur eftir sigurleikinn gegn City í gær.

Kane er samningsbundin Tottenham Hotsur til ársins 2024 en rætt er um að það í enskum fjölmiðlum að hann telji sig hafa gert heiðursmannasamkomulega við Daniel Levy, stjórnarformann félagsins um að fá að fara frá félaginu í sumar ef gott tilboð berst.