Harry Kane skrifaði í dag undir nýjan sex ára samning hjá Tottenham þrátt fyrir að hann ætti enn fjögur ár eftir af gamla samningi sínum.

Hinn 24 árs gamli Kane átti besta tímabil sitt til þessa í vetur þegar hann skoraði 41 mark í 48 leikjum í öllum keppnum en í 37. leikjum í ensku úrvalsdeildinni skoraði hann 30 mörk.

Hefur hann verið orðaður við Real Madrid undanfarna mánuði en nýji samningurinn ætti að binda enda á þær sögusagnir. Koma þessar fréttir stuttu eftir að Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri liðsins, framlengdi hjá Tottenham.

Verður hann fyrirliði enska landsliðsins á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar en hann hefur skorað þrettán mörk í 24 leikjum fyrir hönd Englands.