Harry Kane ferðaðist ekki með liði sínu Tottenham Hotspur til Portúgals en liðið leikur þar við Pacos de Ferreira í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta karla á fimmtudagskvöldið kemur.

Kane, sem er fyrirliði Tottenham Hotspur, var í 25 manna leikmannahópi liðsins fyrir leikinn en tekin hefur verið sú ákvörðun að hann verði eftir í Lundúnum og æfi þar.

Enski landsliðsframherjinn mætti til æfinga hjá Tottenham Hotspur á föstudaginn síðastliðinn en hann æfði einn um síðustu helgi. Fyrsta æfing hans með liðinu var ekki fyrr en í gærmorgun.

Kane var þar af leiðandi ekki í leikmannahópi Tottenham Hotspur þegar liðið lagði Mancester City að velli í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnugaginn.

Þrálátur orðrómur er uppi þess efnis að Kane muni ganga til liðs við Manchester City áður en félagaskiptaglugganum lokar um komandi mánaðamót.

Talið er að Kane hafi tjáð forráðamönnum Tottenham Hotspur eftir síðustu leiktíð að hann vilji leita á önnur mið. Tottenham Hotspur hafnaði fyrr í sumar 100 milljón punda tilboði Manchester City í Kane en Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, er staðráðinn í að bæta við framherja í liðið áður en glugganum verður lokað.