Cristiano Ronaldo hefur snúið aftur á æfingasvæði Manchester United. Hann hefur verið í löngu sumarfríi, en hann fór ekki með liðinu í æfingaferð til Asíu á dögunum.

Portúgalska stórstjarnan vill komast burt frá Man Utd, aðeins ári eftir að hann sneri til félagsins á ný.

Man Utd átti slappt tímabil á síðustu leiktíð og hafnaði í sjötta sæti. Persónulega átti Ronaldo hins vegar gott tímabil.

Rauðu djöflarnir munu því ekki leika í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, eitthvað sem Ronaldo getur ekki sætt sig við.

Man Utd reynir nú allt til að sannfæra Ronaldo um að vera áfram. Kappinn mætti í viðræður á æfingasvæði félagsins í dag, að sögn þó aðeins til að reyna að komast burt.

Félagið hefur kallað til Sir Alex Ferguson til að reyna að sannfæra Ronaldo. Skotinn sannfærði hann einmitt um að snúa aftur á Old Trafford síðasta sumar, þegar útlit var fyrir að leikmaðurinn væri á leið til Manchester City.