Stelpurnar okkar í handboltalandsliðinu töpuðu með sjö marka mun gegn Norður-Makedóníu í undankeppni HM 2021 í gær. Leiknum lauk með 24-17 sigri heimakvenna í Skopje þrátt fyrir frábæra byrjun íslenska liðsins.

Þetta var fyrsti leikur kvennalandsliðsins af þremur á þremur dögum í Skopje. Í dag mæta þær Grikklandi og ljúka riðlakeppninni gegn Litháen á morgun. Tvö efstu lið riðilsins fara í tuttugu liða umspil um miða á HM.

Ísland lék frábærlega fyrsta korter leiksins og kom Steinunn Björnsdóttir Íslandi 7-2 yfir um miðbik fyrri hálfleiks. Steinunn meiddist í markinu en við það hrundi leikur íslenska liðsins og leiddu heimakonur í hálfleik.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn vel og náði forskotinu á ný, en eins og í þeim fyrri hrundi sóknarleikurinn síðasta korterið. Með því náðu heimakonur 10-2 kafla sem innsiglaði sigurinn.

Á seinustu fimmtán mínútum fyrri- og seinni hálfleiks breyttist leikurinn með nítján mörkum Norður-Makedóníu gegn þremur mörkum íslenska liðsins.