Ég kaus besta möguleikann í stöðunni fyrir mig og fjölskyldu mína,“ sagði Dustin Johnson, einn besti kylfingur heims undanfarin ár þegar hann var spurður út í ákvörðun sína um að þiggja tilboð frá LIV-mótaröðinni í golfi sem hefst í dag.

Um er að ræða byltingu í golfheiminum sem er ætlað að veita PGA-mótaröðinni vissa samkeppni, um leið og það verður keppt eftir nýju fyrirkomulagi sem blandar saman liðakeppni og einstaklingskeppni.

Keppnin hófst klukkan eitt í dag og er streymisþjónustan Viaplay með réttindi að mótaröðinni.

Hugmyndin er ekki ný af nálinni en hún hefur verið í vinnslu í tæp þrjú ár. Frá byrjun hafa forsvarsmenn PGA-mótaraðarinnar, elstu, sterkustu og virtustu mótaraðar heims, barist gegn hugmyndinni og hótað leikmönnum sektum, brottrekstri og banni ef þeir þæðu boð um skipti.

Það virðist hafa verið fyrir daufum eyrum hjá leikmönnunum því í aðdraganda eins af risamótum ársins horfir PGA-mótaröðin á eftir hverju risanafninu á fætur öðru.

„Maður horfir jákvætt á allar breytingar þar til maður sér eitthvað neikvætt við þær. Ég held að þetta muni hafa jákvæð áhrif á golfíþróttina til frambúðar. Hvort sem þetta verði til þess að PGA-mótaröðin bæti sitt ráð eða með eigin leiðum,“ segir Sigmundur Einar Másson, fyrrum Íslandsmeistari í golfi sem hélt úti hlaðvarpinu Golfkastið á sínum tíma, aðspurður út í þessi kaflaskil.

„Það er alltaf verið að leitast eftir því að skapa fleiri mót sem eru á stærðargráðu á við risamótin. Bæði með WGC-mótaröðinni, Players-mótinu sem hefur verið mót leikmannanna og fleiri mótum en golf er og hefur alltaf verið íhaldssöm íþrótt. “

Í gær bárust fréttir um að fleiri stórnöfn hygðust færa sig um set þegar fullyrt var að þrír af litríkustu kylfingum heims, Bryson DeChambeau, Rickie Fowler og Patrick Reed, hefðu tekið boði LIV. Síðar um daginn staðfesti umboðsmaður De­Chambeau tíðindin.

Sigmundur tók undir að eftir áralanga störukeppni virtist sem svo að kylfingarnir ætluðu ekki að hlusta á hótanir PGA-mótaraðarinnar.

„Ólíkt því sem átti sér stað með Ofurdeildina í knattspyrnunni er ekkert eiginlegt yfirvald eins og UEFA og FIFA sem getur stöðvað svona áætlanir. PGA hefur haft í hótunum á ýmsan máta og þeir eru að beita ákveðnu útspili núna, að tilkynna að kylfingar afsali sér réttinum til að keppa í Ryder-bikarnum ef þeir skipta yfir.“

Á sama tíma eru aðrir kylfingar sem afþökkuðu boð LIV-mótaraðarinnar og gaf Greg Norman til kynna að Tiger Woods hefði hafnað tilboði sem væri nálægt milljarði dollara fyrir að koma að verkefninu.

„Svo er hluti af þessu að þetta eru íþróttamenn sem treysta á vissa tekjuinnkomu og það er erfitt að hafna tilboðum eins og þessum. Það verður gaman að sjá hvað styrktaraðilarnir þeirra og íþróttavöruframleiðendurnir gera því við erum þegar búin að sjá leikmenn missa styrktarsamninga.“

Sigmundur kveðst spenntur að sjá þróun mótaraðarinnar þegar líða tekur á fyrsta tímabilið sem telur átta mót.

„Þetta mótafyrirkomulag er í mótun enda kylfingar að skrá sig á síðustu stundu en það verður áhugavert að fylgjast með framþróun móta­raðarinnar.