Akureyringar gerðu sér lítið fyrir og unnu 29-27 sigur á Fram í Olís-deild kvenna í kvöld sem þýðir að Valskonur eru komnar með átta fingur á titilinn þegar þær eiga þrjá leiki eftir.

Valur er með eins stiga forskot á Fram ásamt því að eiga leik inni og geta því tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri í næstu tveimur leikjum.

Á sama tíma tókst KA/Þór að saxa á forskot ÍBV í baráttunni um fjórða sætið sem veitir þáttökurétt í úrslitakeppninni.

Framkonur lentu í vandræðum gegn Selfossi á dögunum og þau vandræði héldu áfram því í kvöld því Akureyringar byrjuðu leikinn betur og leiddu lungan úr fyrri hálfleik.

Það var allt í járnum í seinni hálfleik og var staðan jöfn, 23-23 þegar korter var til leiksloka en þá tókst KA/Þór að skilja sig frá Fram með öflugum 6-3 spretti sem átti eftir að landa sigrinum.

Martha Hermannsdóttir fór á kostum í liði KA/Þórs með tíu mörk og Sólveig Lára Kristjánsdóttir bætti við átta en hjá gestunum var Steinunn Björnsdóttir atkvæðamest með sex mörk.