„Það er jákvætt fyrir okkur að við séum að fá staðfestingu á því að við séum að fá völl og stúku,“ segir Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, en á bæjarstjórnarfundi Akureyrarbæjar í vikunni var samþykkt samhljóma skýrsla um uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum. Í bókun um verkefnin kemur fram að þau voru metin út frá fjárhags- og félagslegum forsendum og endurspegla niðurstöður starfshóps um þá þörf sem er til staðar í bænum.

Þegar er búið að samþykkja fyrsta verkefnið, sem er uppbygging á félagssvæði Nökkva við Höpnersbryggju, og undirbúningur hafinn á næstu tveimur. Annars vegar félags- og æfingaaðstöðu í Skautahöll Akureyrar og svo gervigras og stúku á KA-svæðinu.

Um langtímaáætlun er að ræða og til hliðsjónar verður fjárhagsáætlun hvers tíma.Þórsarar ætla sér að verða áfram á náttúrulegu grasi, enda þeirra völlur í lagi, en samkvæmt rökstuðningi við KA kemur fram að mikil viðhaldsþörf sé komin á Akureyrarvöll og brýnt að annaðhvort verði ráðist í það viðhald eða hefja uppbyggingu annars staðar í bænum.

Þá er einnig fjallað um hina gríðarlegu fjölgun sem hefur orðið á iðkendum innan félagsins.Sævar segir að aðstaða KA sé í raun sprungin, enda hafi iðkendum, bara í fótboltanum, fjölgað um hartnær helming og farið úr rúmum 400 árið 2014 í rúma 700 iðkendur. Þá séu tvö handboltalið kominn í KA-húsið sem áður voru í Íþróttahöllinni. „Það hefur fjölgað gríðarlega í félaginu enda tvö ný hverfi komin hér við hlið, Nausta- og Hagahverfið. Þegar KA-mannvirkið var byggt voru þessi hverfi ekki til. Við erum með fjölgun í iðkendum, við viljum byggja svæðið okkar upp og þetta var jákvætt skref að sjá skýrsluna staðfesta af bæjarstjórn,“ segir hann.

Með fjölguninni fylgir oft velgengni en KA fagnaði nýverið Íslandsmeistaratitli í fjórða flokki og samkvæmt KSÍ-vefnum eru yngri flokkarnir að standa sig almennt mjög vel. Þannig er kvennastarfið að skila sér. „Við vorum nánast að fá kvörtun frá mótanefnd KSÍ því þar er verið að undirbúa níu undanúrslitaleiki í þriðja og fjórða flokki og KA er í sex þeirra. Þannig að það þarf að fara að finna dómaratríó,“ segir hann léttur.

Samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins sem samþykkt var fyrir árin 2020–2023 er gert ráð fyrir uppbyggingunni á KA-svæðinu og þó það sé verið að bíða eftir nýrri og endurbættri fjárhagsáætlun bæjarins vonar Sævar að allt sé á áætlun. „Það eru aðeins breyttar forsendur núna vegna ástandsins en við sjáum nú ljósið í enda ganganna, að það sé eitthvað að fara í gang.“ KA vonaðist til að reisa völl og stúku árið 2008 og voru jarðvegsframkvæmdir hafnar þegar hrunið kom og því var einfaldlega fyllt upp í holuna.