KA ætlar sér að áfrýja fimm leikja banni sem þjálfari liðsins Arnar Grétarsson hefur verið dæmdur í eftir leik KA og KR í Bestu deildinni. Þetta staðfestir Sævar Pétursson, framkvæmdarstjóri KA í samtali við vefmiðilinn 433.is

„Við ætlum að áfrýja málinu, á meðan málið fer fyrir áfrýjunardómstól þá tjáum við okkur ekki meira um það,“ sagði Sævar við 433.is og bætti við að Sveinn Arnarsson, fjórði dómari leiksins, hafi skilað inn auka skýrslu um samskipti sín við Arnar en hann hefur ekki fengið að sjá hana.

Arnar í gær dæmdur í fimm leikja bann af aganefnd Knattspyrnusambands Íslands eftir leik KA og KR í deildinni. Um verulega þunga refsingu er að ræða og því hefur verið varpað fram á samfélagsmiðlum að ástæða þessarar þungu refsingar einskorðist ekki einungis við það sem átti sér stað á leikdegi.

Arnar var ansi ósáttur með dómgæsluna í leik KA og KR og fékk undir lok leiks að líta rauða spjaldið eftir að hafa kallað fjórða dómara leiksins, Svein Arnarson „fokking fávita." Arnar fór því sjálfkrafa í tveggja leikja bann því þetta er ekki í fyrsta skipti á tímabilinu sem honum er gefið rauða spjaldið.

Vefsíðan Fótbolti.net greindi frá því að Arnar og Sveinn, sem eru báðir búsettir á Akureyri, hefðu mæst daginn eftir leik og „Arnari hafi ekki verið runnin reiðin þá" .

Í samtali við Fréttablaðið kveðst Sveinn Arnarsson, fjórði dómari leiksins ekki vilja tjá sig um samskipti sín og Arnars Grétarssonar, þjálfara KA.