Aaron Ramsey gengur í raðir Juventus 1. júlí næstkomandi. Ítalíumeistararnir staðfestu félagaskiptin í kvöld.

Ramsey kemur til Juventus á frjálsri sölu frá Arsenal. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning við Juventus.

Walesverjinn hefur leikið með Arsenal frá árinu 2008 en hann kom frá Cardiff City. Enginn í leikmannahópi Arsenal hefur verið lengur hjá félaginu en Ramsey.

Ramsey verður þriðji Walesverjinn sem klæðist treyju Juventus. Hann fylgir í fótspor John Charles og Ian Rush.

Ramsey hefur þrisvar sinnum orðið enskur bikarmeistari með Arsenal. Hann hefur alls leikið 357 leiki fyrir Arsenal og skorað 61 mark.