Á hluthafafundi Juventus kom í ljós að ítalska stórveldið var rekið með halla upp á 89,7 milljónir evra sem eru rúmlega 16 milljarðar króna.

Juventus hefur fundið fyrir áhrifum kórónaveirufaraldursins á rekstur fótboltafélaga. Tekjur af leikdegi hafa ekki skilað sér undanfarna mánuði eftir að áhorfendabann var sett á Ítalíu.

Síðustu sex leikir Juventus í deildinni og viðureign Juventus og Lyon í Meistaradeild Evrópu fóru fram fyrir luktum dyrum.

Þá olli Juventus vonbrigðum í Meistaradeildinni og varð af mikilvægum tekjum þar.

Fyrr á þessu ári ræddi Andrea Agnelli, forseti Juventus og samtaka félagsliða í Evrópu, stöðu mála.

Þar kom fram að stærstu lið Evrópu þurfi að greiða sjónvarpsrétthöfum skaðabætur ofan á tekjumissi félaganna.