Juventus á sex af sjö launahæstu leikmönnum ítalska boltans þar sem Cristiano Ronaldo er í sérflokki.

Ítalska blaðið La Gazzetta dello Sport birti í dag yfirlit yfir launakostnað liðanna í deildinni ásamt því hvað stærstu stjörnur deildarinnar eru að fá í laun.

Heildar launakostnaður Juventus á ári er 294 milljónir evra en næstir koma Inter með 139 milljónir evra á ári. Atalanta sem komst óvænt í Meistaradeild Evrópu á síðasta ári er með 13. hæsta launakostnaðinn í deildinni.

Ronaldo er launahæstur með 31 milljónir evra árlega og er með gott forskot á næsta mann, hollenska miðvörðinn Mathjis de Ligt sem samdi við Juventus í sumar.

Romelu Lukaku er eini fulltrúi Inter meðal sjö efstu í þriðja sæti eftir vistaskipti frá Manchester United í sumar en næstu sæti skipa Gonzalo Higuain, Paulo Dybala, Adrien Rabiot og Aaron Ramsey.