Everton reyndist lítil fyrirstaða fyrir Liverpool, sem er á mikilli siglingu í ensku úrvalsdeildinni um þessar mundir. Everton er hins vegar að ganga í gegnum afleita tíma undir stjórn knattspyrnustjórans Rafa Benitez og hefur ekki unnið leik í deildinni síðan þann 25. september síðastliðinn.

Óánægður stuðningsmaður Everton, lét stjórnarmenn og forráðamenn félagsins heyra það er þeir yfirgáfu völlinn eftir leik gærkvöldsins.

Stuðningsmaðurinn lét reiði sína þó bitna einna helst á Marcel Brands, yfirmanni knattspyrnumála hjá Everton. Hann hrópaði í áttina á Brands eftir leik og spurði hann hvað honum fyndist um þetta? og hvort að hann hefði fengið þessa leikmenn til liðsins.

Stuðningsmaðurinn endaði síðan á því að segja Brands að hypja sig í burtu frá félaginu.

Marcel Brands er yfirmaður Grétars Rafns Steinssonar, fyrrum atvinnu- og landsliðsmanns í knattspyrnu, sem er nú yfirnjósnari Everton í Evrópu.

Það reyndist erfitt fyrir öryggisgæsluna að halda aftur af æstum stuðningsmönnum Everton eftir tap gærkvöldsins. Einn stuðningsmaður slapp fram hjá gæslunni og sást eiga orð við leikmenn Everton eftir leik.

Boðað var til neyðarfundar hjá stjórn Everton í gær og þar var rætt um framtíð knattspyrnustjórans Rafa Benitez hjá félaginu. Eins og hlutirnir líta út núna virðist Benitez halda starfi sínu en ljóst er að lítið má út af bregða.