Michael Jordan seldi um helgina hlut af 65% eignarhaldi sínu í liði Charlotte Hornets í NBA-deildinni en ekki hefur verið tilkynnt hversu stóran hluta Jordan seldi.

Jordan keypti fyrst hluta í liði Charlotte árið 2006 og var orðinn stærsti hluthafi félagsins sem hét þá Charlotte Bobcats árið 2009 þegar félagið var verðmetið á 280 milljónir evra.

Áætlað er að Jordan hafi sjálfur lagt til um þrjátíu milljónir dollara til að kaupa eignarhlut upp á 180 milljónir.

Í dag er félagið verðmetið á 1,5 milljarð bandaríkjadollara og er því óhætt að fullyrða að Jordan hafi stórgrætt á fjárfestingu sinni árið 2009.

Jordan mun þó áfram eiga meirihluta í félaginu og stýra félaginu næstu árin þrátt fyrir að honum hafi gengið talsvert verr utan vallar en inn á vellinum.

Jordan ræðir hér við Dwight Howard
fréttablaðið/getty

Jordan þykir einn besti körfuboltamaður allra tíma eftir að hafa orðið sexfaldur meistari með Chicago Bulls á leikmannaferli sínum en hann hefur ekki náð sömu hæðum sem eigandi.

Á þrettán árum síðan hann hóf störf fyrir félagið sem hluthafi hefur Charlotte komist þrisvar í útsláttarkeppnina og aldrei komist lengra en í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Í þrettán tilraunum í nýliðvali NBA-deildarinnar hefur Hornets tekist að finna eina stjörnu, Kemba Walker sem yfirgaf félagið í sumar og samdi við Boston Celtics þrátt fyrir að Hornets hafi yfirleitt fengið að velja snemma í nýliðavalinu árlega.

Þá er lið Hornets í dag með marga leikmenn á erfiðum samningum sem eiga að vera í hlutverki aukaleikara en ekki að leiða liðið sem þýðir að liðið mun ekki afreka neitt næstu árin.

Hefur Jordan meðal annars verið kallaður versti eigandi NBA-liðs af hinum umdeilda Skip Bayless.