Jonny Evans, fyrrum leikmaður West Brom og Manchester United, samdi í dag við Leicester City en hann kemur til félagsins eftir að West Brom féll úr ensku úrvalsdeildinni á dögunum.

Hefur Evans verið orðaður við hin ýmsu félög undanfarna mánuði þegar ljóst var að West Brom myndi falla en Evans skrifaði undir þriggja ára samning hjá Leicester. Var hann um tíma orðaður við Manchester City og Arsenal en hann semur við fyrrum meistarana í Leicester.

Hinn þrítugi miðvörður á að baki 235 leiki í ensku úrvalsdeildinni og hefur skorað í þeim níu mörk en hjá Manchester United varð hann þrívegis enskur meistari.

Er hann annar leikmaðurinn sem Claude Puel bætir við í sumar á eftir portúgalska bakverðinum Ricardo Pereira en hann á að baki 70. leiki fyrir Norður-írska landsliðið.