Christopher Rasheed Jones sagði fráfall fjölskyldumeðlims á dögunum hefði gert það að verkum að hann hafi ekki treyst sér að taka þátt í seinni hálfleik í leik Vals í gær.

Þetta staðfesti hann í samtali við Fréttablaðið í dag sama dag og Valur rifti samningi við hann. Jones gaf ekki kost á sér í seinni hálfleik í tapi Valsmanna gegn Keflavík í gær.

Hann sagði að fjölskyldumeðlimur hefði fallið frá á dögunum og hann hefði farið leynt með það en í hálfleik hafi hann fundið að hann væri ekki á réttum stað til að taka þátt í seinni hálfleik.

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, kannaðist ekki við þessar fregnir en sagði þær skýra ýmislegt.

„Ég vissi hreint út sagt ekki af þessu, þetta eru nýjar fréttir fyrir mér,“ sagði Ágúst í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Það var augljóst að hann var ekki í réttu hugarástandi, hvorki í þessum leik né á dögunum fyrir þennan leik.“