Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, varð fyrir því óláni að handarbrotna þegar íslenska liðið vann frábæran sigur á því slóvakíska í undankeppni EM í kvöld.
Ísland var undir í hálfleik, 1-0, en sneri taflinu við í seinni hálfleik og vann að lokum 3-1 sigur. Skömmu eftir að flautað var til síðari hálfleiks varð rafmagnslaust á vellinum í Senec í Slóvakíu. Jón Þór lýsir því í viðtali við Fótbolta.net hvað gerðist í kjölfarið.
„Eftir stoppið í rafmagnsleysinu vorum við að stappa stálinu í hvert annað og ég lem í nuddbekk með krepptum hnefa. Ég hitti þar utan á hnefann og braut beinið sem er efst uppi í litla puttanum. Það er smávægilegt og ég verð klár á þriðjudaginn,“ sagði Jón Þór sem var á sjúkrahúsinu þegar Fótbolti.net ræddi við hann.
Jón Þór segist ekki hafa barið í bekkinn í reiðikasti heldur hafi hann ætlað að leggja áherslu á að liðið héldi áfram af sama krafti og það byrjaði seinni hálfleikinn. „Ég sagði við stelpurnar eftir leikinn að ég ætlaði ekki að fara að brjóta bein í hvert skipti sem þyrfti að koma til baka en ef það var þetta sem þurfti þá var ég hæstánægður með það og fórna mér glaður í það.“