„Þó svo að það sé frekja að vera svekktur eftir að hafa gert jafntefli á móti jafn sterku liðið og Svíþjóð og fara fram á meira af leikmönnum mínum þá get ég alveg viðurkennt að ég hefði viljað ná í þrjú stig eins og leikurinn þróaðist," sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari Íslands, eftir 1-1 jafntefli liðsins á móti Svíþjóð í fimmtu umferð í undankeppni EM 2022 í knattspyrnu kvenna á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Fyrst og fremst er ég sáttur ofboðslega stoltur af liðinu og afskaplega sáttur við spilamennsku liðsins í þessum leik. Sérstaklega er ég ánægður með að hafa komið til baka, sýnt karakter og jafnað metin eftir að hafa lent undir á móti jafn sterkum andstæðingi og raun ber vitni," sagði þjálfarinn hreykinn.

„Það gladdi mig líka mikið að liðið hafi ekki bognað eða brotnað við það mótlæti að markið hennar Söru Bjarkar hafi ekki fengið að standa. Ég skal svo alveg viðurkenna það að það fór um mig að sjá leikmenn Svía vera með auðan völl á meðan við vorum að fagna. Þær áttu hins vegar eftir að sigra Söndru [Sigurðardóttur] sem stóð sig frábærlega í leiknum og það er alls ekkert víst að það hefði tekist," sagði hann um markið sem dæmt var af íslenska liðinu.

„Sú staðreynd að það var Sara Björk sem skoraði markið sem dæmt var af gerir þetta enn meira svekkjandi þar sem hún átti það meira en skilið eftir þá leiðtogahæfileika og frammistöðu sem hún hefur sýnt í þessu landsliðsverkefni.

Það er síður en svo létt verk fyrir hana að sýna jafn mikla ástríðu og spila jafn vel og hún gerði eftir rússibanareði á þessu ári með félagsliðum sínum. Að halda einbeitingu eftir að hafa átt stóran þátt í að Lyon vann Meistaradeild Evrópu og vera valin besti miðjumaður keppninnar er ekki sjálfgefið," sagði Jón Þór um fyrirliða sinn.