Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokks, bókaði á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar að hún hreinlega trúði því ekki að bærinn gæti ekki styrkt þrjú ungmenni sem reyna að komast á Ólympíuleikana um 300 þúsund krónur. „Við eigum frábært íþróttafólk sem er að standa sig mjög vel og við getum verið stolt af þeim og þau eru stolt að bera merki Reykjanesbæjar, sem er þekktur fyrir að vera íþróttabær,“ segir meðal annars í bókun hennar.

Bókun Margrétar kemur í kjölfarið á frétt Fréttablaðsins um ungt sundfólk sem sótti um styrk til að æfa sig til að komast á Ólympíuleikana í Tókíó í sumar. Bærinn sagði nei því þetta væri æfingaferð en ekki keppnisferð. Bærinn setti þó 500 þúsund krónur í körfuboltamót yngri flokka í bænum svo hægt væri að halda glæsilegt og veglegt opnunar- og lokakvöld.

Reglur íþrótta- og tómstundaráðs í Reykjanesbæ eru þó þannig að æfingaferðir falla ekki undir reglur sjóðsins og fengu Már og Karen Mist Arngeirsdóttur og Evu Margréti Falsdóttur því synjun.

Margrét Ólöf A. Sanders, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, benti á að Njarðvíkurbær hefði stutt dyggilega við bakið á Eðvarði Þór Eðvarssyni á sínum tíma þegar hann var að ná lágmörkum á Ólympíuleikana í Seúl 1988. „Ég minnist þess að þegar ég var í íþróttaráði Njarðvíkur vorum við að styrkja Eðvarð Þór gríðarlega mikið. Það var ekki bara til keppni. Hann var á fullum launum hjá bænum, ef ég man rétt. Hann fékk mikla styrki hvort sem var til æfinga eða keppni. Líka þjálfarinn hans. Það var alveg til fyrirmyndar.“ Hún spurði líka hvort bæjarbúar ættu að standa saman eins og gert var í tilfelli Eðvars. „Ég sem bæjarbúi spyr hvort við eigum að standa saman eins og gerðist með Eðvarð. Það voru líka fyrirtæki og einstaklingar sem studdu hann. Eigum við pening til að hjálpa?“

Eðvarð Þór Eðvarðsson sundkappi naut stuðnings Njarðvíkur. Hann var íþróttamaður ársins 1986.

Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, benti á að kjörnum fulltrúum bæri að fara eftir reglum. „Við erum ekki að veita styrki í æfingaferðir, þannig eru reglurnar. Það var engin leið að veita þennan styrk.“ Hann bætti svo við að hann sjálfur vildi fara á Ólympíuleika eldri borgara. „Ég er ánægður með að við séum að standa við þær reglur sem við settum. Mér finnst það eðlilegt. Hvar eru mörkin á þessu? Ég væri til í að keppa á Ól eldri. Er bærinn til í að styrkja mig?“ spurði hann.

Friðjón benti einnig á í pontu að styrkveitingar til landsliðsfólks Reykjanesbæjar hefðu verið auknar úr 20 þúsundum í 40 þúsund eftir að Margrét, sem vill að bærinn stofni afrekssjóð, enda dugi 40 þúsund lítið upp í ferðakostnað, hafi tekið dæmi máli sínu til stuðnings. „Það var einstaklingur valinn til að leika með U-18 ára landsliði í körfubolta síðasta sumar, fyrst á EM og svo á NM. Kostnaður viðkomandi var 538.700. Þar sem hann fékk styrk fékk hann tvisvar 20 þúsund og 10 þúsund eða samtals 50 þúsund krónur. Það vantar talsvert til að þetta gangi upp.“

Bent var á það á Bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ að fyrirtækin á svæðinu væru ekki að leggja neitt af mörkum til íþróttastarfa. Talað var sérstaklega um fyrirtækin innan flugstöðvarinnar. Fréttablaðið/Stefán

Gunnar Þórarinsson bæjarfulltrúi Frjáls afls benti á að fyrirtæki á svæðinu væru því miður ekki að setja neinn pening í íþróttir og vildi sjá þau gera betur. Þá var komið að Guðbrandi Einarssyni Beinnar leiðar. „Af hverju á að veita sérstaka afreksstyrki frekar en aðra? Hverjir eru afreksmenn? Eru það þeir sem komast í landsliðin. En hin börnin? Ég næ þessu ekki,“ sagði Guðbrandur og yppti öxlum. Hann hélt svo áfram. „Ætlum við bara að hlúa að svokölluðum afreksfólki. Ég vil frekar hugsa um hina og láta þá sitja við sama borð.“