Handknattleiksdeild Víkings hefur samið við Jón Gunnlaug Viggósson um að taka að sér aðalþjálfun meistaraflokks karla til ársins 2023 og ráðið Andra Berg Haraldsson sem aðstoðarþjálfara. Í þjálfarateyminu verður einnig Guðjón Örn Ingólfsson styrktarþjálfari.

Jón Gunnlaugur mun taka við af Gunnari Gunnarssyni sem þjálfað hefur liðið undanfarin fimm ár. Jón Gunnlaugur sem er íþróttafræðingur að mennt, lauk Master Coach þjálfaragráðu frá Handknattleikssambandi Evrópu 2018 en hún er æðsta þjálfaragráða sem hægt er að hljóta.

Auk þess útskrifaðist Gulli í febrúar síðastliðnum með meistaragráðu í þjálfun í gegnum Handknattleikssamband Evrópu og spænska háskólans á Las Palmas. Jón Gunnlaugur hefur síðasta árið verið yfirþjálfari yngri flokka hjá Víkingi auk þess að þjálfa 3. flokk karla hjá félaginu.

„Öflug stjórn bæði hjá meistaraflokki og Barna- og unglingaráði ásamt öflugum kjarna af leikmönnum sem eru að koma upp og sem fyrir eru hjá liðinu er góð uppskrift.

Ég þori að fullyrða að handknattleiksdeildin hafi sjaldan verið á jafn góðum stað og hún er núna og því heiður að taka við starfinu hjá uppeldisfélaginu mínu og byggja ofan á það góða starf sem Gunni hefur stýrt undanfarin ár,“ segir Jón Gunnlaugur í samtali við heimasíðu Víkings.

„Víkingur er rótgróið félag með sterka sögu. Það er töluvert síðan Víkingur telfdi fram meistaraflokksliði í hæsta gæðaflokki og mun ég leggja mitt af mörkum að láta það verða að veruleika aftur. Víkingur er með öfluga stjórn og sterkt barna- og unglingaráð og má með sanni segja að bjartir tímar séu framundan í Víkinni," segir Andri Berg sem lék með lék með meistaraflokki Víkings 2003-2005.