Enn fjölgar íslenskum leikmönnum í rússnesku úrvalsdeildinni en Jón Guðni Fjóluson er genginn í raðir Krasnodar.

Jón Guðni kemur til Krasnodar frá Norrköping þar sem hann hefur leikið við góðan orðstír undanfarin tvö ár. Þar áður lék Jón Guðni með Sundsvall í Svíþjóð, Beerschot í Belgíu og Fram á Íslandi.

Jón Guðni verður fimmti Íslendingurinn í rússnesku úrvalsdeildinni. Hörður Björgvin Magnússon er á mála hjá CSKA Moskvu og þeir Ragnar Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson leika með Rostov.

Krasnodar er með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í rússnesku úrvalsdeildinni. Á síðasta tímabili lenti liðið í 4. sæti.

Jón Guðni, sem er 29 ára, hefur leikið 13 landsleiki og skorað eitt mark.