Jón Guðni Fjóluson lék allar 90. mínúturnar þegar rússneska félagið Krasnodar var grátlega nálægt því að slá Valencia úr leik í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í 1-1 jafntefli.

Íslendingurinn þurfti að fylgjast með af varamannabekknum í fyrri leik liðanna sem lauk með 2-1 sigri Spánverjanna en stóð vakt sína með prýði í dag.

Staðan var markalaus þegar tíu mínútur voru til leiksloka en Magomed-Shapi Suleymano kom heimamönnum yfir með stórbrotnu marki tíu mínútum fyrir leikslok þegar hann átti fallegt langskot sem hafnaði í hliðarnetinu.

Á seinustu mínútu framlengingarinnar tókst Goncalo Guedes að jafna metin af stuttu færi eftir góðan undirbúning Kevin Gameiro og koma í veg fyrir að Krasnodar færi áfram í átta liða úrslitin.

Á sama tíma vann Chelsea öruggan 5-0 sigur í seinni leiknum gegn Dynamo Kiev í Kænugarði og Salzburg vann 3-1 sigur á Napoli í fæðingarborg Mozart.

Napoli vann fyrri leik liðanna 3-0 og eftir að Ítalirnir skoruðu mikilvægt útivallarmark var það ljóst að austurríska liðið væri á útleið. Þeim tókst þó að skora tvívegis og vinna seinni leik liðanna.