Jón Guðni Fjóluson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er á leið frá rússneska úrvalsdeildarliðinu Krasnodar. Þetta kom fram í yfirlýsingu rússneska félagsins.

Jón Guðni hefur leikið með Krasn­odar síðan árið 2018. Hann kom til liðsins frá sænska liðinu Norrköping. Áður hafði þessi öflugi varnarmaður leikið með belgíska liðinu Beerschot og sænska liðinu Sundsvall á atvinnumannaferlinum.

Þessi 31 árs gamli leikmaður átti eitt ár eftir af samningi sínum við Krasnodar en ákveðið var að halda ekki áfram samstarfi aðilanna. Krasnodar hafði í sínum röðum 12 erlenda leikmenn en má einungis hafa átta útlendinga í sínum röðum. 

Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður Jóns Guðna, sagði í samtali við Fotbollskanalen að ekki lægi annað fyrir hvað framhaldið varðar hjá Jóni Guðna en að hann kæmi til Íslands í sumarfrí. Það kæmi í ljós fljótlega hvað framtíðin bæri í skauti sér.