Það kemur í hlut Jóns Daða Böðvarssonar og samherja hans hjá Reading og liðsmanna Frank Lampard hjá Derby County að hefja leik í ensku B-deildinni í knattspyrnu karla, en liðin eigast við á Madejski-leikvanginum, heimavelli Reading, um kvöldmatarleytið í kvöld. 

Þetta verður fyrsti deildarleikur Lampard sem knattspyrnustjóri, en hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu síðasta vor. Derby County fór í umspil um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni síðasta vor, en laut í lægra haldi fyrir Fulham sem tryggði sér svo sæti í deild þeirra bestu. 

Tímabilið í fyrra var hins vegar vonbrigði fyrir Reading sem endaði þremur stigum fyrir ofan fallsvæði deildarinnar. Jón Daði var þó einn af ljósu punktunum hjá liðinu, en hann var markahæsti leikmaður liðsins með tíu mörk í 36 leikjum í öllum keppnum. 

Hollenski knattspyrnustjórinn Jaap Stam var látinn taka pokann sinn á miðju síðasta keppnistímabili og við starfi hans tók Englendingurinn Paul Clement sem sigldi liðinu í höfn hvað sæti í deildinni varðar. Nú fær hann tækifæri til þess að láta ljós sitt skína á sinni fyrstu leiktíð með liðið.