Jón Daði Böðvarsson skoraði mark Reading í 1-2 tapi fyrir Derby County í fyrsta leik tímabilsins í ensku B-deildinni í kvöld.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 52. mínútu kom Jón Daði Reading yfir með góðum skalla eftir fyrirgjöf Modou Barrow. Mark Selfyssingsins var fyrsta mark tímabilsins í ensku B-deildinni.

Átta mínútum síðar jafnaði Mason Mount, lánsmaður frá Chelsea, metin fyrir Derby með skoti fyrir utan teig.

Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Tom Lawrence sigurmark Derby. Hann skallaði þá fyrirgjöf Masons Bennett í netið og tryggði strákunum hans Franks Lampard öll stigin þrjú.

Jón Daði var tekinn af velli þegar 15 mínútur voru til leiksloka. Hann er á sínu öðru tímabili hjá Reading.