„Það var frábær tilfinning að komast út á völlinn aftur en þetta er fyrsti leikurinn minn síðan ég spilaði með Reading í febrúar. Ég æfði vel undir stjórn Gunnars Borgþórssonar á Selfossi síðustu vikurnar og kom inn í verkefnið í fínu standi," sagði Jón Daði í samtali við Fréttablaðið eftir leikinn.

„Mér leið vel á æfingunum fyrir þessa leiki og ég átti allt eins von á því að byrja þennan leik. Ég hefði alveg getað harkað mig í gegnum allan leikinn en það var líklega skynsamlegt að taka mig af velli á þeim tímapunkti sem það var gert," sagði framherjinn enn fremur.

„Mér fannst við spila vel í þessum leik og okkur gekk vel að halda boltanum og skapa færi Það var sterkt að ná að landa þessum sigri og koma okkur í pakkann á toppi riðilsins. Nú er bara að halda áfram á þessari braut," sagði hann um leikinn í kvöld.

Jón Daði segir aðdragandann að leiknum hafa verið skringilegan og Tyrkirnir hafi sýnt vanvirðingu eftir leikinn. „Það var frekar steikt að vera að fá þessa haturspósta fyrir leik en ég skoðaði þá reyndar mjög lítíð.

Þjálfarinn þeirra vildi svo ekki taka í höndina á mér eftir leikinn til þess að þakka fyrir rimmuna. Mér fannst það einkennilegt en við héldum bara haus og sýndum virðingu og kurteisi," segir þessi prúði piltur um umstangið í kringum þennan leik.