Jón Daði Böðvarsson, framherji Millwall og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er um þessar mundir með landsliðinu í Tyrklandi þar sem að liðið mun leika tvo vináttuleiki, einn gegn Úganda og annan gegn Suður-Kóreu.

Það vakti athygli margra þegar landsliðshópurinn var kynntur að nafn Jóns Daða var þar að finna. Leikirnir sem framundan eru hjá íslenska landsliðinu fara fram fyrir utan hefðbundinn landsleikjaglugga FIFA og því var aðeins búist við því að leikmannahópur Íslands yrði nánast eingöngu skipaður leikmönnum sem spila á Norðurlöndunum.

Jón Daði hefur verið í frystikistunni hjá Millwall að undanförnu og hefur ekki spilað leik fyrir félagið síðan í ágúst í fyrra. Jón Daði útskýrði stöðu sína hjá félaginu í viðtali við KSÍ TV í dag.

,,Framundan er að reyna finna sér nýtt lið og betra fótboltaumhverfi til að vera í. Maður er á góðum aldri ennþá og vill ekki sóa tímanum sínum fram að sumri þangað til að maður finnur nýtt umhverfi. Það eru einhverjar þreyfingar í gangi og það er verið að vinna í því að finna nýtt félag fyrir mig til að komast í og koma þessu aftur í gang af alvöru," sagði Jón Daði í samtali við KSÍ TV.

Rætt var um stöðu Jóns Daða í þættinum Íþróttavikan með Benna Bó á föstudaginn síðastliðinn.

,,Það eru erfiðir tímar að baki hjá Jóni Daða,“ sagði Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður RÚV í Íþróttavikunni.

Hörður Snævar, ritstjóri 433.is, tók undir það hjá Einari. ,,Manni finnst þetta ótrúleg staða. Ég set ekkert út á það að hann sé settur á bekkinn eða út úr hóp einhverntímann þarna hjá Millwall en liðið er búið að vera í einni mestu Covid-krísunni af öllum liðum í Bretlandi en hann á ekki breik í hópinn. Sextán ára guttarnir eru bara kallaðir inn í hóp á undan honum. Hann hefur ekki fengið að spila fótbolta með Millwall síðan einhverntímann í maí og er ekkert að fara spila fótbolta með þeim aftur.“

,,Kannski horfir hann á þessa landsleiki sem einhvern glugga til að minna á nafnið sitt og koma sér annað því augljóslega þarf hann að fara,“ sagði Hörður um stöðu Jóns Daða í þættinum Íþróttavikan með Benna Bó.

,,Jú og það kannski kristallast í þessu liðsvali. Það að hann „fái“ að fara í þetta verkefni núna, sem almennt leikmenn á meginlandinu eða Englandi eru ekki að fara í, segir bara sína sögu. Millwall ætla sér ekkert að nota hann og ég er ekkert viss um að hann komi aftur til baka til Millwall eftir þessa leiki,“ svaraði Einar Örn, íþróttafréttamaður RÚV.