Einn íslenskur leikmaður mun taka þátt í NBA-nýliðavalinu að þessu en það er landsliðsmaðurinn og Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson, sem leikið hefur með Davidson háskólanum undanfarin tímabil. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu körfuboltasambands Íslands.

Jón Axel gekk til liðs við Fraport Skyliners sem atvinnumaður fyrir þetta tímabil en liðið hans leikur í efstu deild í Þýskalandi. Í fyrstu fimm leikjunum hjá Fraport Skyliners hefur hann skilað 18 stigum, fimm fráköstum og fimm stoðsendingum að meðaltali í leik.

Nýliðavalinu verður sjónvarpað frá höfuðstöðvum ESPN á netinu en ekki með viðhöfn líkt og venjulega en athöfnin átti að fara fram í Bacley Center í Brooklyn. Engu að síður er mikil dagskrá framundan og bíða margir spenntir eftir valinu að venju.

Ljóst er að nýliðavalið er um margt sérstakt í ár þar sem valin sjálfu var fyrst frestað, bæði út af heimsfaraldrinum sem og að lokatímabilið í háskólaboltanum, og þar með lokaárinu hjá Jóni Axel, var flautað af sl. vetur út af faraldrinum. Lið þurfa að vanda valið eftir því hvernig leikmönnum þau leita að.

Gríðarlegur fjöldi leikmanna er á hverju ári í valinu en eingöngu eru 60 leikmenn valdir í tveim umferðum. Fram kemur í frétt KKÍ að vitað sé af talsverðum áhuga nokkura liða sem eiga valrétt í seinni umferðinni og þau lið sem mögulega gætu kosið að velja Jón Axel séu Charlotte Hornets, Sacramento Kings og Golden State Warriors

Pétur Guðmundsson er eini Íslendingurinn sem leikið hefur í deildinni. Hann var valinn, sem þá var þriðja umferð, af Portland Trail Blazers árið 1981 og lék í deildinni til 1989 með Portland, San Antonio og Lakers. Jón Arnór Stefánsson var síðan á samning hjá Dallas Mavericks 2003-2004 en lék ekki í deildinni á meðan hann var í þeirra herbúðum. Tryggvi Snær Hlinason fór í nýliðavalið að auki árið 2018 en var ekki valinn.

Næsta verkefni Jóns Axels verður svo landsliðsglugginn sem fram fer í FIBA „bubblu“ í Slóvakíu með karlalandsliðinu sem stendur yfir dagana 23.-29. nóvember. Þá verða tveir landsleikir á dagskránni gegn Lúxemborg og Kosovó í undankeppni HM 2023.