Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson var í dag valinn besti leikmaður þessa tímabils í Atlantic 10-deildinni í körfubolta eftir hreint út sagt magnað ár hjá Jóni.

Jón Axel var þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar og í fimmta sæti yfir bæði fráköst og stoðsendingar sem leiddi til þess að hann var valinn besti leikmaður deildarinnar ásamt því að vera valinn í úrvalsliðið.

Alls var Jón Axel með 17,2 stig, 7,3 fráköst og 4,7 stoðsendingu að meðaltali í leik. Enginn í deildinni tók fleiri varnarfráköst en Grindvíkingurinn á þessu tímabili.

Fyrr í vetur varð Jón Axel sá fyrsti sem nær þrefaldri tvennu, yfir tíu stig í stigum, fráköstum og stoðsendingum, í 46 ár og sá fyrsti í sögu skólans sem nær yfir 1000 stigum, 500 fráköstum og 400 stoðsendingum með liði Davidson.

Úrslitakeppnin í Atlantic 10-deildinni er að hefjast þar sem Davidson Wildcats er komið í átta-liða úrslitin en með sigri í mótinu gæti Jón Axel öðlast þátttökurétt í marsfárinu (e. march madness) annað árið í röð.