Jón Axel Guðmundsson sá til þess að Davidson vann Rhode Island, 63-61, í bandaríska háskólakörfuboltanum í fyrrinótt. Hann skoraði sigurkörfuna þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka.

Jón Axel hefur átt góðu gengi að fagna með Davidson í vetur. Raunar eru tölurnar sem hann skilar sögulega góðar.

Grindvíkingurinn, sem er á sínu öðru tímabili hjá Davidson, er með 13,4 stig, 6,1 frákast og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í leik í vetur.

Jón Axel er fyrsti leikmaðurinn í sögu Davidson sem er með 13 stig eða meira, sex fráköst eða meira og fimm stoðsendingar eða meira að meðaltali í leik. Ekki amalegt.

Steph Curry, leikmaður NBA-meistara Golden State Warriors, er frægasti sonur Davidson. Hann fylgdist með leiknum gegn Rhode Island og var að vonum sáttur þegar Jón Axel skoraði sigurkörfuna. „Frábært að vera Villiköttur í dag“, skrifaði Curry á Twitter.

Davidson hefur unnið 18 af 29 leikjum sínum í vetur. Þann 9. mars leika Villikettirnir í 8-liða úrslitum Atlantic 10 deildarinnar. Ekki liggur enn fyrir hver andstæðingurinn verður.