Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta mun taka þátt í nýliðavali NBA deildarinnar í körfubolta í ár. Nýliðavalinu verður sjónvarpað frá höfuðstöðvum ESPN á netinu en ekki með viðhöfn líkt og venjulega.

Jón Axel gekk til liðs við Fraport Skyliners sem leikur í efstu deild í Þýskalandi fyrir þetta tímabil. Í fyrstu fimm leikjunum hefur Jón skilað átján stigum, fimm fráköstum og fimm stoðsendingum að meðaltali í leik.

Gríðarlegur fjöldi leikmanna er á hverju ári í valinu en eingöngu eru 60 leikmenn valdir í tveimur umferðum. Fram kemur í frétt KKÍ, um nýliðavalið, að vitað sé af talsverðum áhuga nokkurra liða sem eiga valrétt í seinni umferðinni.Þau lið sem mögulega gætu kosið að velja Jón Axel séu Charlotte Hornets, Sacramento Kings og Golden State Warriors.

Pétur Guðmundsson er eini Íslendingurinn sem leikið hefur í NBA. Pétur lék í átta ár í deildinni með með Portland Trailblazers, San Antonio Spurs og Los Angeles Lakers. Jón Arnór Stefánsson var á samningi hjá Dallas Mavericks í eitt ár en kom ekki við sögu í deildinni. Þá fór Tryggvi Snær Hlinason í nýliðavalið árið 2018 en var ekki valinn.