„Það er alltaf öðruvísi að koma í landsliðsverkefni, þetta brýtur upp daglega umhverfið sem maður er með hjá landsliðinu og svo þykir manni vænt um alla þjálfarana svo það er gott að vera kominn aftur,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, leikmaður íslenska landsliðsins, aðspurður hvernig væri að vera kominn aftur inn í landsliðið.

„Það ætti að mótivera okkur að vera að spila á heimavelli, hér viljum við vinna alla leiki. Íslenska liðið hefur verið í mörgum spennandi leikjum undanfarið þar sem mistök varnarlega og einbeitingarleysi hafa verið að kosta liðið sigur og það er okkar að bæta upp fyrir það.“

Jón Arnór gat ekki gefið kost á sér í síðasta verkefni vegna meiðsla og missti hann því af leiknum gegn Portúgal ytra.

„Ég hélt að það yrði ekkert erfitt en þegar leikurinn fór að nálgast varð erfitt að fylgjast með úr sófanum. Þá langaði að hjálpa til en á sama tíma var gaman að fylgjast með þeim spila. Dýnamíkin í liðinu er að breytast, það eru yngri strákar að taka við keflinu og það er gaman að fylgjast með því.“

Hann hefur reynt að miðla af sinni reynslu á æfingum liðsins.

„Það fer að styttast í að yngri leikmennirnir taki við þessu liði og þá þurfa þeir að vera tilbúnir. Þeir eru að öðlast reynslu hvernig á að mæta mismunandi leikmönnum og mæta mismunandi leikkerfum. Ég reyni að miðla af minni reynslu og vonandi smitar það út frá sér.“

Jón Arnór hefur mætt þessu belgíska liði margoft á síðustu árum.

„Þeir eru með mjög gott lið og við fengum stóran skell hérna fyrir nokkrum árum. Þeir eru að fá inn öfluga bakverði og mæta með meiri breidd í Höllina. Það er undir okkur komið að finna veikleika þeirra og nýta okkur þá,“ sagði Jón sem sagði þjálfarateymið vera búið að vinna undirbúningsvinnuna sína vel.

„Það eru ákveðnir hlutir sem við getum nýtt okkur. Þjálfarateymið er búið að setja fókus á þessa hluti og hafa gefið okkur punkta hvernig við getum brugðist við varnarleiknum þeirra. Það er núna undir okkur komið að nýta okkur það.“

Þessi undankeppni verður hans síðasta.

„Ég klára þessa undankeppni og er svo búinn eftir það. Ég er hinsvegar lítið að horfa til þess, það eina sem ég horfi á er að vinna leiki,“ sagði Jón Arnór sem sagðist aðspurður ekki búast við hátíðarhöldum eftir lokaleikinn.

„Ég er ekkert að fara að biðja um kveðjuathöfn eins og Logi fékk. Það verður engin pressa frá mér að fá einhver hátíðarhöld,“ sagði hann hlæjandi að lokum.