Jón Arnór Stefánsson og Helgi Már Magnússon skrifuðu í kvöld undir nýja samninga við KR og taka slaginn með uppeldisfélaginu næsta vetur.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að Jón Arnór og Helgi Már væru með tilboð frá Val um að fylgja Pavel Ermolinskij yfir á Hlíðarenda.

Jón Arnór var búinn að tilkynna að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir síðasta tímabil en viðurkenndi í vor að honum gæti snúist hugur.

Þeir hafa báðir leikið með KR allan sinn feril á Íslandi eftir að hafa komið upp úr unglingastarfi félagsins á sínum tíma.