Jón Arnór Stefánsson mun leggja landsliðsskóna á hilluna eftir leik íslenska karlalandsliðsins í körfubolta gegn Portúgal í forkeppni Evrópukeppninnar 2021 sem fram fer í Laugardalshöllinni 21. febrúar næstkomandi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu KKÍ um leikinn sem sjá má hér að neðan:

Jón Arnór sem er 36 ára gamall tilkynnti það fyrir yfirstandandi leiktíð að þetta væri hans síðasta keppnistímabil sem körfuboltamaður, en hann ætlar að ljúka ferlinum þar sem hann byrjaði í meistaraflokki í Vesturbænum. 

Það lá því í loftinu að landsliðsskórnir færu sömuleiðis á hilluna og nú er ljóst að hann fær kveðjuleik á heimavelli í sínum 100. landsleik.