Þegar árið 2019 gekk í garð var Tindastóll á toppi Domino’s-deildar karla eftir að hafa unnið tíu af ellefu leikjum sínum í fyrri umferðinni. Á þessu ári hefur hins vegar allt gengið á afturfótunum hjá Stólunum. 

Þeir hafa tapað fjórum af sex leikjum sínum í Domino’s-deildinni og deila 3-4 sæti með Keflavík. Þá féll Tindastóll, sem er ríkjandi bikarmeistari, úr leik fyrir Stjörnunni í 8-liða úrslitum Geysisbikarsins.

Stólarnir eiga á hættu að tapa sínum þriðja leik í röð þegar þeir fá Stjörnumenn, sem hafa unnið níu leiki í röð, í heimsókn. Tindastóll missti niður gott forskot og tapaði í framlengingu fyrir KR á fimmtudaginn í síðustu viku, 88-91, og á sunnudaginn beið liðið lægri hlut fyrir Grindavík, 100-96. 

Það dugði Tindastóli ekki að vera með 50% þriggja stiga nýtingu í leiknum í Röstinni.

Ef litið er á tölfræðina hefur sóknarleikur Tindastóls verið svipaður og hann var fyrir áramót. Skotnýtingin, bæði inni í teig og utan hans, er meira að segja betri eftir áramót. 

Í leikjunum sex eftir áramót hafa Stólarnir skorað 85,5 stig að meðaltali. Fyrir áramót voru stigin 88,7 að meðaltali í leik. Fjöldi stoðsendinga og tapaðra bolta er svipaður.

Öðru máli gegnir um varnarleikinn. Á þeim enda vallarins hafa Stólarnir gefið mikið eftir. Fyrir áramót fengu þeir aðeins 71,8 stig á sig að meðaltali í leik. 

Eftir áramót hafa þeir hins vegar fengið á sig 88,5 stig að meðaltali í leik. Þetta er breyting upp á 16,7 stig. Skotnýting andstæðinga Tindastóls var 39% fyrir áramót en er 44% eftir áramót. Vörnin hefur látið mikið á sjá og andstæðingar Tindastóls fá auðveldari skot en þeir gerðu áður.

Svo eru Stólarnir hættir að frákasta eins vel og þeir gerðu fyrir áramót. Í ellefu leikjum fyrir áramót tók Tindastóll 44,6 fráköst að meðaltali í leik. Þau eru 39,7 eftir áramót. 

Stólarnir unnu frákastabaráttuna í átta af ellefu leikjum fyrir áramót en hafa tapað henni í fjórum af sex leikjum eftir áramót. Stólarnir töpuðu líka frákastabaráttunni í bikarleiknum gegn Stjörnumönnum.

Stólarnir geta þó huggað sig við að það er skárra að taka dýfu meðan á deildarkeppninni stendur en þegar komið er í úrslitakeppnina. Stólarnir verða þó að gefa í ef þeir ætla ekki að missa heimavallarrétt í úrslitakeppninni. Á því er raunveruleg hætta.