Körfubolti

Jólasteikin fór illa með leikmenn Tindastóls

Tindastóll fær heitasta lið Domino’s-deildar karla, Stjörnuna, í heimsókn í kvöld. Stólarnir hafa gefið hressilega eftir á árinu 2019 og tapað fjórum af sex deildarleikjum sínum.

Stólarnir hafa átt erfitt uppdráttar eftir áramót og eiga erfiðan leik fyrir höndum á heimavelli í kvöld. Fréttablaðið/Sigtryggur ari

Þegar árið 2019 gekk í garð var Tindastóll á toppi Domino’s-deildar karla eftir að hafa unnið tíu af ellefu leikjum sínum í fyrri umferðinni. Á þessu ári hefur hins vegar allt gengið á afturfótunum hjá Stólunum. 

Þeir hafa tapað fjórum af sex leikjum sínum í Domino’s-deildinni og deila 3-4 sæti með Keflavík. Þá féll Tindastóll, sem er ríkjandi bikarmeistari, úr leik fyrir Stjörnunni í 8-liða úrslitum Geysisbikarsins.

Stólarnir eiga á hættu að tapa sínum þriðja leik í röð þegar þeir fá Stjörnumenn, sem hafa unnið níu leiki í röð, í heimsókn. Tindastóll missti niður gott forskot og tapaði í framlengingu fyrir KR á fimmtudaginn í síðustu viku, 88-91, og á sunnudaginn beið liðið lægri hlut fyrir Grindavík, 100-96. 

Það dugði Tindastóli ekki að vera með 50% þriggja stiga nýtingu í leiknum í Röstinni.

Ef litið er á tölfræðina hefur sóknarleikur Tindastóls verið svipaður og hann var fyrir áramót. Skotnýtingin, bæði inni í teig og utan hans, er meira að segja betri eftir áramót. 

Í leikjunum sex eftir áramót hafa Stólarnir skorað 85,5 stig að meðaltali. Fyrir áramót voru stigin 88,7 að meðaltali í leik. Fjöldi stoðsendinga og tapaðra bolta er svipaður.

Öðru máli gegnir um varnarleikinn. Á þeim enda vallarins hafa Stólarnir gefið mikið eftir. Fyrir áramót fengu þeir aðeins 71,8 stig á sig að meðaltali í leik. 

Eftir áramót hafa þeir hins vegar fengið á sig 88,5 stig að meðaltali í leik. Þetta er breyting upp á 16,7 stig. Skotnýting andstæðinga Tindastóls var 39% fyrir áramót en er 44% eftir áramót. Vörnin hefur látið mikið á sjá og andstæðingar Tindastóls fá auðveldari skot en þeir gerðu áður.

Svo eru Stólarnir hættir að frákasta eins vel og þeir gerðu fyrir áramót. Í ellefu leikjum fyrir áramót tók Tindastóll 44,6 fráköst að meðaltali í leik. Þau eru 39,7 eftir áramót. 

Stólarnir unnu frákastabaráttuna í átta af ellefu leikjum fyrir áramót en hafa tapað henni í fjórum af sex leikjum eftir áramót. Stólarnir töpuðu líka frákastabaráttunni í bikarleiknum gegn Stjörnumönnum.

Stólarnir geta þó huggað sig við að það er skárra að taka dýfu meðan á deildarkeppninni stendur en þegar komið er í úrslitakeppnina. Stólarnir verða þó að gefa í ef þeir ætla ekki að missa heimavallarrétt í úrslitakeppninni. Á því er raunveruleg hætta. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Körfubolti

Ágúst þjálfar U-20 ára landsliðið

Körfubolti

Tuttugu ára bið eftir nýju lagi frá Shaq lokið

Körfubolti

Fjórar breytingar fyrir leikinn gegn Belgíu

Auglýsing

Nýjast

Guðni forseti sá Jóhann Berg leggja upp mark

Crystal Palace komst upp í miðja deild

ÍBV síðasta liðið í Höllina

Fram úr fallsæti með sigri norðan heiða

Messi skoraði þrjú og lagði upp eitt

Newcastle United kom sér í tímabundið skjól

Auglýsing