Knattspyrnudeild KR hefur samið við Jóhannes Karl Sigursteinsson um að hann muni stýra kvennaliði félagsins út yfirstandandi leiktíð.

Jóhannes Karl hefur auk þess að þjálfa yngri flokka hjá nokkrum félögum, meðal annars KR, fyrir nokkrum árum síðan þjálfað meistaraflokka kvenna hjá Stjörnunni, Breiðablik og HK/Víkingi.

Árið 2002 var Jóhannes Karl aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá KR þannig að hann er öllum hnútum kunnugur hjá félaginu.

Bojana Besic lét af störfum sem þjálfari liðsins á dögunum en hún mun halda áfram starfi sínu sem yfirþjálfari kvennaflokka félagsins.

Ragna Lóa Stefánsdóttir sem var aðstoðarmaður Bojönu tók við keflinu af henni en undir hennar stjórn hafði liðið betur í tveimur leikjum í röð og lyfti sér upp í fimmta sæti deildarinnar þar sem liðið er með 10 stig.

Þá er KR-liðið sömuleiðis komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins þar sem liðið mætir Þór/KA.

Uppfært klukkan 20:12. KR-ingar hafa staðfest framangreinda þjálfararáðningu eins og sjá má í twitter-færslunni hér að neðan: